Hraunbúðafréttir

19.03.2020

Smá fréttir af okkur hér á Hraunbúðum.  Þetta eru skrítnir tímar sem við lifum núna, en við vitum að þetta er bara tímabil og áður en við vitum af verður sólin farin að skína, allir farnir að knúsast á ný og hafa gaman saman.  Það skal þó sagt í einlægni að lífið er ekki alveg eins skemmtilegt núna á Hraunbúðum og það var fyrir nokkrum vikum síðan.   Við reynum þó að gera það besta úr stöðunni með það að leiðarljósi að heilsa heimilismanna sé í fyrsta sæti, við viljum vernda þau eins og okkur frekast er unnt fyrir því að fá veiruna.  Núna tvo morgna í röð hafa komið til okkar yndisleg börn úr Hamarskóla og sungið á gluggana, það eru allir svo glaðir með þetta framtak.  Við höfum líka séð aðstandendur kíkja á glugga svona aðeins til að sjá sitt fólk.   Klukkan þrjú á daginn eru flestir í kaffi bæði í stóra matsalnum og svo í enda austurgangs, ef einhverjir fleiri vilja kíkja á okkur fyrir utan gluggann t.d með dýr með sér er það velkomið. 

Í síðustu viku skiptum við upp húsinu í tvö svæði, þar sem sami starfshópur er með sinn gang.  Við bættum enn meira í aðskilnaðinn þarna á milli nú í vikunni.  Starfshópar og heimilisfólk ganganna hittast sem allra minnst og hafa ekki sömu snertifleti, við hentum upp aukasetustofu á vesturganginum með góðri aðstoð.  Allir sem búa á austurganginum borða nú í austurendanum í matsal sem tilheyrir nýju deildinni, vesturgangur borðar í stóra matsalnum. Búningsherbergi eru nú orðin þrjú í staðinn fyrir eitt svo sameiginlegir snertifletir séu sem fæstir.  Þar sem ekki þarf nálægð er reglan að hafa samskipti sem minnst og þá í amk 2 m fjarlægð.  Þetta ásamt fullt af öðrum forvörnum, sýkingavörnum og öðrum þáttum sem starfsfólkið okkar hefur unnið að síðustu vikurnar er okkar viðleitni í að halda veirunni í burtu.   Við erum þó að gera þetta allt í fyrsta skipti eins og allir aðrir og getum ekki gert annað en reyna okkar besta í stöðunni og fylgja tilmælum almannavarna í einu og öllu.  Við þökkum aftur skilninginn á heimsóknarbanninnu og vonum að hægt verði að létta því af sem allra fyrst.