Til aðstandenda heimilisfólks á Hraunbúðum

12.03.2020

Kæru aðstandendur !

Nú eru liðnir nokkrir dagar síðan setja þurfti á heimsóknarbann á Hraunbúðir vegna yfirvofandi hættu á Covid-19 veirunni. Er þetta gert til að gera það sem í okkar valdi stendur til að lágmarka líkur á því að heimilisfólkið smitist en aldraðir eru í áhættuhópi.   Þetta er fordæmalaust ástand sem við erum að fara í gegnum núna og förum við í gegnum það af rósemi en samt með sting í hjartanu yfir að þurfa að skerða lífsgæði heimilismanna á meðan við erum í leiðinni að vernda þau eins og okkur frekast er unnt.  Við þökkum innilega fyrir skilning ykkar og jákvæð viðbrögð við þessari lokun.

Miðlægt tómstundastarf hjá okkur hefur verið skert en við erum þó ennþá með heita bakstra og hreyfingu innanhúss.  Starfsfólk reynir svo að hafa ofan af fyrir fólkinu eins og mögulegt er og munum við í kringum helgina senda út skype-aðgang svo hægt sé að hafa samband við heimilisfólk í hljóð og mynd. 

Hárgreiðslan og fótsnyrtingin er ennþá opin fyrir heimilisfólk með ákveðnum skilyrðum.  Dagdvölin er með breyttu sniði og fer nú fram í enda matsalar og er lokuð af frá heimilinu, einnig fer hún fram í þjónustuíbúðum og svo inn á heimilum hjá þeim sem eru í forgangi með þjónustu.

Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af einmanaleika vegna þess að heimilismenn geti ekki hitt fólkið sitt.  Ef þið hafið áhyggjur af andlegri líðan hjá heimilismanni er ykkur velkomið að senda póst á hjukrun@vestmannaeyjar.is, vaktsíma hjúkrunarfræðinga s. 893 1384 eða deildarstjóra öldrunarmála í s. 860 1030.

Við bjóðum aðstandendum einnig upp á að skrá sig á facebooksíðu til að fá reglulegar fréttir af heimilinu og/eða senda spurningar, upplýsingar um það um helgina líka.  Einnig má senda  netfang á hraunbudir@vestmannaeyjar.is  Við munum einnig setja fréttir inn á www.hraunbudir.is