Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir með erindi !

05.02.2020

Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir kom til okkar á Hraunbúðir 4.febrúar og kynnti heimilisfólki sem og dagdvalargestum ferðir sínar til Gambíu. Þóra Hrönn hefur farið margar ferðir til Gambíu þar sem hún hefur verið í hjálparstarfi. Hún ásamt manni sínum og börnum hafa farið út og haldið fræðslu ásamt hjúkrunarfræðing þar í bæ fyrir ungar stelpur um blæðingar. Í Gambíu hefur ekki verið nein fræðsla fyrir 

stelpur um þessi málefni. Þóra Hrönn hefur í samstarfi við móður sína, Sigurlaugu, útbúið pakka fyrir ungar konur sem innihalda fjölnota dömubindi, þvottastykki og sápur. Eftir hverja fræðslu fær hver og ein stúlka úthlutað einum poka og einnig fá þær kennslu hvernig nota eigi bindin. Í Gambíu er mikið um að ungar stúlkur eignist börn snemma en þar í bæ er engin fæðingarþjónustu. Þóra Hrönn og maðurinn hennar ákváðu því að styrkja eina stúlku þar í bæ og stundar hún nú nám og er að læra að verða ljósmóðir.
Þóra Hrönn finnur upp á ýmsum hugmyndum til þess að láta gott af sér leiða, hún ásamt móður sinni og hennar saumavinkonum hafa verið að útbúa kjóla fyrir ungar stelpur í Gambíu og eru þeir hver öðrum fallegri. Þess má geta að allt efni sem fer í þessa kjóla er keypt í Gambíu til þess að styrkja framleiðslu þar í bæ, einnig er hún í samvinnu við konu sem útbýr sápurnar sem fara í pokana. Fjölskylda hennar hefur einnig gefið fótbolta, föt og margt fleira sem gleður hjarta fólksins þar í bæ. Það má því segja að Þóra Hrönn og hennar fjölskylda standi þétt við bakið á samfélaginu í Gambíu. Þessi skemmtilegi og fræðandi fyrirlestur situr fast í minni okkar hér á Hraunbúðum og viljum við eindregið þakka Þóru Hrönn og dóttur hennar fyrir að koma til okkar og leyfa okkur að fylgjast með þessu frábæra verkefni hjá henni og fjölskyldu hennar.