Fimm nýjar þjónustuíbúðir vígðar !

10.10.2019

Miðvikudaginn 9 október voru nýjar þjónustuíbúðir eldri borgara í Eyjahrauni vígðar. Íbúðirnar eru fimm en í þeim búa sex eldri borgarar, ein hjón og fjórir íbúar í einstaklingsíbúðum.

Íris Róbertsdóttir sagði við þetta tilefni að þetta fyrirkomulag á búsetuformi hafi ekki áður verið hjá Vestmannaeyjabæ. Hún segir þetta form vera í þróun.

Millistig sem vantaði inní þjónustuna hjá Vestmannaeyjabæ
Íris sagði að með tímanum verði teknar inn fleiri íbúðir í þetta þjónustufyrirkomulag, þar af ein til viðbótar fyrri hluta næsta árs.

„Þjónustuíbúðir eru hugsaðar sem millistig á milli þess að einstaklingar treysta sér ekki lengur til að búa lengur heima en eru ekki orðnir í  brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Millistig sem vantaði inní þjónustuna hjá Vestmannaeyjabæ.”

Fram kom að setustofan hafi verið „mubluð“ fyrir

nafnlaust gjafafé og aðstoðaði Sara Dögg Guðjónsdóttir við val á innanstokksmunum.

Þjónustupakkar tengdar íbúðunum í boði
Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri í öldrunarmálum og Helga Jóhanna Harðardóttir formaður fjölskyldu- og tómstundaráðs afhentu nýjum íbúunum blóm frá Vestmannaeyjabæ.

Innifalið í þjónustupakka tengdum íbúðunum er eftirfarandi sem íbúar greiða fyrir er öryggiskerfi með möguleikum á fullkomnum skynjurum ofl, þjónusta t.d. þvottar og þrif, innlit og eftirlit, sami starfsmaður í húsi fyrir hádegi alla virka daga, innlit seinni part. Fylgd með einstaklingi yfir á Hraunbúðir og tilbaka ef þörf er á. Möguleiki á dagþjónustu alla virka daga á Hraunbúðum s.s tómstundastarf, leikfimi. Matur alla virka daga val um að borða á Hraunbúðum eða fá sendan mat heim og þá er heimsendur matur um helgar.