HJÓLAÐ ÓHÁÐ ALDRI

28.07.2017

Á fimmtudaginn 27.júlí var formlega afhent við Hraunbúðir þríhjól sem Vestmannaeyjabær og Kvenfélagið Heimaey hafa fest kaup á og er ætlað til notkunar fyrir aldraða og fatlaða í Vestmannaeyjum.  Hjólið er rafknúið þríhjól þar sem einn eða tveir farþegar sitja í þægilegu sæti fyrir framan hjólarann.  Hjólið verður staðsett  til skiptis á Hraunbúðum, við hæfingarstöðina Heimaey og við þjónustuíbúðirnar á Vestmannabraut.
 Elliði Vignisson bæjarstjóri hélt 

ræðu af þessu tilefni og sagði aðkomu Vestmannaeyjabæjar að kaupum á hjólinu vera í gegnum “Viltu hafa áhrif”, sem er verkefni samkvæmt stefnu bæjaryfirvalda um aukið íbúalýðræði.
Hann þakkaði Kvenfélaginu Heimaey myndarlegan stuðning og Húsasmiðjunni sem gáfu hjálma og teppi og Heildverslun Kristmanns Karlssonar sem buðu upp á veitingar við vígslu hjólsins.  Hólmfríður Ólafsdóttir var viðstödd fyrir hönd kvenfélagsins Heimaeyjar og hélt hún einnig stutta ræðu.  Það var svo bæjarstjórinn sem fór í fyrstu hjólaferðina ásamt elsta íbúa Vestmannaeyja Sigfríði Runólfsdóttur 97 ára. 
Síðar um daginn var haldið stutt námskeið fyrir þá sem hafa áhuga á að gerast hjólarar, en framundan eru æfingar hjá hjólurum til að öðlast færni í að hjóla með farþega.
 
Þeim sem eru áhugasamir um að læra á hjólið er bent á að hafa samband við Lísu Njálsdóttur, Sonju Ruiz eða Sólrúnu Gunnarsdóttur. 

Myndir má nálgast HÉR